Aðdragandi að stofnun Barþjónaklúbbs Íslands B.C.I.
Þegar barir voru að ryðja sér til rúms í sölum veitinga- og gistihúsa hér á landi má kalla daga nýsköpunar. Fjölbreytni í veitingarekstri þess tíma var vel tekið af þeim fjölmörgu gestum sem heimsóttu veitingastaði í þá daga. En það voru hnökrar á menningunni því það var aðeins einn lærður barþjónn til í landinu og sá var starfandi á farþegaskipinu Gullfoss sem var í siglingum milli Reykjavíkur og Kaupmannahafnar með viðkomu í Skotlandi, það var starfsbróðir okkar Stefán Þorvaldsson nú látinn, mikill sómamaður vel liðinn og fyrirmyndar barþjónn. Það má því segja að árið 1959 hafi verið mikið gæfuár fyrir íslenska barþjóna sem þá voru að hefja sín fyrstu gönguspor, að þá á miðju ári hafði þáverandi formaður danskra barþjóna, mikill Íslandsvinur, Kurt Sörensen, sem einnig var forseti alþjóðasamtaka barþjóna, verið gestur starfsfólks Flugfélags Íslands í nokkra daga. Flugáhafnir félagsins höfðu þá alltaf hvíldargistingu á Hótel Comopolite í Kaupmannahöfn.
Þar var hann starfandi sem yfirbarþjónn og var búinn að hafa mikil og góð tengsl við flugfélagsfólkið og aðra þá Íslendinga sem þar gistu. Í þessari heimsókn sinni til Íslands notaði Kurt Sörensen tækifærið og hafði tal af nokkrum íslenskum starfsbræðrum og út úr þeim viðræðum gerðust þau ánægjulegu tíðindi, eftir að hann hafði haft samráð við stjórn danskra barþjóna D.B.L., að ákveðið var að bjóða nokkrum barþjónum frá Íslandi sem áheyrnarfulltrúum á 10. alþjóðamót barþjónasamtakanna sem halda skyldi í Kaupmannahöfn daganna 26.-30. október sama ár á vegum danska barþjónaklúbbsins. Á þetta fyrsta heimsmót barþjóna sem Íslendingar tóku þátt í fóru þeir Daníel Stefánsson, Theodór Ólafsson, Sigurður Sigurjónsson og undirritaður Símon Sigurjónsson. Einnig sat Stefán Þorvaldsson mótið að einhverju leyti, en hann var þá staddur í Kaupmannahöfn vegna starfa sinna sem barþjónn um borð í m/s Gullfossi. Mótið var glæsilegt, lærdómsrikt og ógleymanlegt á allan hátt og dönsku barþjónasamtökunum til mikils sóma. Okkur var vel tekið og hvattir mjög til þess að stofna okkar eigin klúbb bæði af forustumönnum alþjóðasamtakanna og ekki hvað síst af norrænu barþjónafélögunum sem töldu vanta síðasta hlekkinn í norrænu blokkina.
Þegar heim var komið eftir erfiða en skemmtilega og lærdómsríka ferð var farið að ræða nauðsyn þess að stofnaður skyldi barþjónaklúbbur meðal okkar. En skriður komst ekki á þau mál fyrr en boð um að við værum velkomnir á 12. mót alþjóðasamtakanna sem halda skyldi í Noregi haustið 1961 í forsjá norskra barþjónaklúbbsins. Þeir fulltrúar frá okkur fóru þangað ásamt konum sínum, undirritaður og Theodór Ólafsson.
Stofnun klúbbs undirbúinn
Eftir það vaknaði mikill áhugi á því að stofna slík samtök hér á landi, og var þegar hafinn fullur undirbúningur þessa málefnis með því að leita til ýmissa aðildarfélaga alþjóðasamtakanna um að fá klúbba þeirra til að byggja upp lög og reglur fyrir íslenska klúbbinn. Einnig var haft samráð við alþjóðasamtökin um starfsreglur klúbbanna á alþjóðavettvangi.
Þótti hentugast að sníða íslensku lögin eftir lögum norðurlandaþjóðanna enda best til þess fallið. Samkvæmt alþjóðalögum samtaka barþjóna mega slík samtök hvorki hafa stjórnmál né launakröfumál á dagskrá hjá sér og þeim ber að hafa vinsamlegt, óháð samstarf við alla þá aðila sem stuðla geta að bættri og betri kunnáttu á barþjónastarfinu.
Miðvikudaginn 10. apríl 1963, var að tilstuðlan undirritaðs kallað til fundar í veitingahúsinu Naust, með þeim barþjónum sem þá voru starfandi við barþjónustu, og var þeim á breiðum grundvelli skýrt frá aðdraganda og tilkomu fundarins, en hann var hvort stofna ætti barþjónaklúbb hér á landi. Allir viðstaddir fundarmenn voru því meðmæltir. Kjörinn var undirbúningsnefnd til stofnunar klúbbsins. Þeir Símon Sigurjónsson, Stefán Þorvaldsson, Jón Maríasson, Róbert Kristjónsson og Jón Þór Ólafsson.
Stofnfundur Samtaka íslenskra barþjóna (en það hét klúbburinn í upphafi. Nafni klúbbsins var síðar breytt í Barþjónaklúbb Íslands skammstafað B.C.I.) var haldinn í veitingahúsinu Naust, miðvikudaginn 29. maí 1963, að viðstöddum forseta alþjóðasamtaka barþjóna, Kurt Sörensen, sem var félagslegur ráðunautur okkar við stofnun klúbbsins. Í fundarbókun stofnfundarins eru upptaldir 19 stofnendur. Í fyrstu stjórn klúbbsins voru kjörnir: Símon Sigurjónsson formaður, varaformaður Daníel Stefánsson, ritari Þórarinn Flygenring meðstjórnendur þeir Jón Þór Ólafsson og Stefán Þorvaldsson, endurskoðendur voru þeir Jón Jóhannesson og Edvald Torp.
Fyrsta Cocktail keppnin
Íslenskir barþjónar gengu í alþjóðasamtökin á heimsmóti barþjóna sem haldin voru í fjallabænum St. Vincent á Norður Ítalíu í október 1964. Ísland varð 19 þjóðin sem gerðist aðili í alþjóða samtökunum, í dag eru löndin orðin 34. Þrír fulltrúar frá íslenska barþjónaklúbbnum fóru á þetta mót, þeir Bjarni Guðjónsson, Jónas Runólfsson og undirritaður, ásamt konu sinni Ester Guðmundsdóttur. Ísland tók nú í fyrsta sinn þátt í kokteilkeppninni á alþjóðavettvangi, það gerðu kapparnir Bjarni, Jónas og undirritaður, hlutur okkar í þeirri keppni var ekki til að státa sig af, en þó urðum við ekki í neðsta sæti. Fyrir neðan okkur voru Bandaríkin> land kokteilanna, Noregur sem átti heimsmeistarann 1961, og Japan sem hefur yfir 100.000 vínstúkur í Tókýó einni. Úr þessari fyrstu ferð okkar í kokkteilkeppni á alþjóðamóti komum við þó ekki tómhentir heim því við vorum kjörnir vinsælasta liðið og fengum veglegan bikar til eignar.
Á þeim 30 árum frá stofnun B.C.I. er margs að minnast. Klúbburinn hefur átt því láni að fagna að hafa ávallt haft frábæra forystumenn innan sinna raða, þar með er mér ljúft að nefna þá Daníel Stefánsson, Ragnar Ö. Pétursson, Hörð Sigurjónsson og Hafsteinn Egilsson. Allir hafa þeir verið formenn B.C.I. þar ber þó að þakka Daníel Stefánssyni mest og best sem að mínum dómi átti mestan þátt í mótun, skipulagningu og uppbyggingu félagsstarfa á ungdómsárum klúbbsins, enda Daníel frábær skipuleggjandi. Allir þessir menn eiga bestu þakkir fyrir. Ekki má gleyma öðrum stjórnarmönnum, þar hefur alltaf verið valinn maður í hverju starfi.
Mikill vöxtur hefur verið í allri starfssemi B.C.I. allt fram á þennan dag. Kokteils- og Long drinks keppnir eru orðnir fastir viðburðir á ári hverju og haldnar með miklum ágætum. Klúbbfélagar fara árlega á mót og kokteilkeppnir erlendis og eru verðugir fulltrúar þjóðar sinnar.
Íslenski barþjóna klúbburinn hefur ekki bara sett traustan hlekk í keðju norðurlandasamstarfs heldur einnig mikilvægan hlekk í samstarf á alþjóða vettvangi sem nyrsta landið með minnstu íbúa töluna og smæsta félagatalið, en klúbbfélögum öllum fyrr og síðar þakka ég ánægjulegt samstarf á liðnum árum, og votta þeim virðingu mína og aðdáun fyrir þróttmikið klúbbstarf.
Símon Sigurjónsson