Kokteill (cocktail) eða hanastél er stærsti, elsti, fjölbreytilegasti og jafnframt útbreiddasti flokkur vínblandna. Uppruni og nafngift eru hvorutveggja amerískt, en þar voru hanaslagir tíð skemmtiatriði áður fyrr og tíðkast jafnvel enn í sumum héruðum Bandaríkjanna.

Að loknum bardaganum hafði eigandi sigurvegarans rétt til að rífa stélfjaðrirnar af fallna hananum sem tákn sigursins, og með þær var farið í veitingahús og drukkið til heiðurs sigurhananum með orðunum “Let us have a drink on the cock´s tail” og jafnframt var hellt úr einu glasinu yfir stélfjaðrirnar.

Með tímanum hlaut svo það, sem drukkið var eftir hanaslagina, nafnið cocktail og var þá ekki um neinn sérstakan drykk að ræða, heldur aðeins þá drykki, sem tíðkuðust á hverjum stað. En þetta varð upphafið að fjölbreytilegum vínblöndum.

Heimild: Áfengir drykkir, útg. 1953, eftir Hinrik Guðmundsson.