Þróun víns og víngerðar til okkar daga. 1. hluti, byrjunin

Fyrsta skipulagða ræktunarstarfsemin í vínframleiðslu er talin hafa  verið stunduð af bændum í Georgíu og Armeníu í Kákasusfjöllum.

Fornleifafræðingar hafa reynt að tímasetja minjar um raunverulega og skipulagða ræktun vínviðar sem fundist hafa í Georgíu. Þessar minjar benda til þess að þessi skipulega ræktun hafi verið hafin einhverjum árþúsundum fyrir Krist. Þarna vex villt sú planta sem er undirstaða allrar víngerðar. Þennan runna, sem er í eðli sínu klifurjurt var því að finna innan um annan gróður í skóglendi. Vínviðurinn nýtti sér öflugri trjástofna til að vefja sig utan um.

 

Þróun víns og víngerðar til okkar daga. 2. hluti, orðrómurinn

Orðrómurinn um hinn nýja drykk úr Kákasusfjöllum barst út fyrir landamæri þessara héraða og eftirspurn eftir honum varð sífellt meiri frá öðrum svæðum.

Fyrir botni Persaflóa höfðu byggst upp borgarasamfélög sem urðu dyggir kaupendur víns, er fram liðu stundir.

Vandamálið var tengt flutningi vörunnar á markað. Þetta leystu menn með því að sigla með vínið niður tvö stórfljót er renna í Persaflóann, ofan úr Kákasusfjöllum. Fljótin Efrat og Tígris urðu til þess að frægð og frami beið þessa  nýtilkomna drykkjar. Það voru íbúar hinna fornu borgarsamfélaga Kish, Ur og Babylon sem vildu kaupa mjöðinn. Þetta gerðist í kringum 3000 fyrir Krist. Fundist hafa veggmyndir og skreytingar frá þessum tíma er sýna fólk við víndrykkju.

 

Þróun víns og víngerðar til okkar daga. 3. hluti, flutningur

Vandi Kákasushéraðanna var að finna fley sem nothæft væri til flutninganna niður árnar.  Þetta leystu menn með bátum úr trégrind sem nautshúðir voru strekktar utaná.  Þeir settu vínið á trétunnur og hlóðu þeim í bátana. Á áfangastað, í borgunum miklu við fljótin, var timbrið úr trégrindinni selt, nautshúðunum rúllað upp og þær fluttar aftur upp í fjöllin á ösnum. Þar með var fundin leið til að afla fjallahéruðunum útflutningstekna og um leið var hafin útbreiðsla léttvíns og víngerðar um allan heim.

Þróun víns og víngerðar til okkar daga. 4. hluti, Egyptar

Vín og víngerð barst til allra landa fyrir botni Miðjarðarhafsins. Egyptar voru fljótir að tileinka sér þessa nýjung. Þeir hófu mikla ræktun víngarða á bökkum Nílar. Hirðir Faraóanna voru sólgnar í þessi vín. Til eru listaverk er fundist hafa á veggjum grafhýsa Faraóanna, sem lýsa nákvæmlega í myndum öllu ræktunar- og vinnsluferli vína.

 

Þróun víns og víngerðar til okkar daga. 5. hluti, Grikkir

Á þessum tíma voru Grikkir fremstir þjóða í siglingum um Miðjarðarhafið. Sæfarendur frá Grikklandi fluttu mjöðinn með sér heim og þar með hófst víngerð í Grikklandi. Grikkir fundu fljótt markaði fyrir vín sín. Þeir fluttu mikið magn vína yfir Adríahafið til suðurhluta Ítalíu.

Víngerð varð ríkur þáttur í grísku samfélagi. Einn af hinum fornu guðum í grískri goðafræðinni var vínguð nefndur Dyonysus. Margir vildu tilbiðja guðinn, þar sem þáttur í tilbeiðslunni var að neyta guðsins í formi víns.

Rómverska heimsveldið var að rísa og svallveislur hirða rómversku keisaranna voru miklar. Rómverjar voru því fljótir að kynna sér alla þætti víngerðar. Þá fóru menn  að gera greinarmun á milli vína, hvað gæði varðar. Nú var hægt að gera samanburð á vínum frá Egyptalandi, Grikklandi og Ítalíu. Þróunin varð að betrumbæta víngerðina og uppfylla þar með kröfur hirðarinnar um hágæðavín. Í tíð hins mikla keisara Ágústusar á síðustu áratungum fyrir Krist urðu kröfur um gæði vína miklar.

 

Þróun víns og víngerðar til okkar daga. 6. hluti, drykkir Rómverja

Aukin gæði og mismunandi flokkun vínanna tryggðu ekki að vínin væru drykkjarhæf, ef við miðum við nútímavín. Yfirleitt voru þessi vín mjög áfeng, af léttvínum að vera og bragðmikil. Einnig voru þau dísæt.

Einu vínin sem framleidd eru í dag og líkja má við vín frá þessum tíma væri sætt vín og þá helst Madeira. Vínin drukku Rómverjar útþynnt, ýmist með heitu eða köldu vatni og jafnvel með volgum sjó.

Í rústum hinnar fornum borgar Pompei hafa fundist vínbarir, sem skriflegar heimildir herma að hafi selt bæði vín og mat. Gestir gátu þá pantað mismunandi vín. Þau voru þá framreidd ýmist blönduð með köldu eða heitu vatni eða sjó, en allt fór þetta þó eftir veðri hverju sinni. Þegar heitt var úti var blandað með köldu, en því svo öfugt farið ef kólnaði.

Í landvinningum Rómverja barst svo vín og víngerðarhefðin víðsvegar um Evrópu. Rómverjar fluttu vín til herja sinna en þar sem ræktunarskilyrði þóttu ákjósanleg plöntuðu þeir vínviði til þess að framleiða vín. Með þeim þróaðist  víngerð í Frakklandi, Spáni og alla leið upp í Mið Evrópu.

Í dag má sjá ummerki um dvöl Rómverja allt norður til borgarinnar Trier í Þýskalandi. Í Trier voru höfuðstöðvar Rómverja og þar stunduðu þeir víngerð í Rínardalnum.

Svarta hliðið í Trier, þar endaði Rómarveldi í norðri

 

Þróun víns og víngerðar til okkar daga. 7. hluti, ýmis þáttaskil

Bakslag kom í víngerð í löndum Suður Evrópu. Sérstaklega átti þetta við um víngerð á Spáni. Márar, herskáir múhameðstrúarmenn frá Norður Afríku, lögðu undir sig Spán og nokkrar eyjar í Miðjarðarhafinu. Samkvæmt trú sinni neyta þeir ekki áfengis og því lögðu þeir niður víngerð á þeim svæðum sem þeir hertóku.

Á miðöldum fóru menn að gera greinarmun á gæðum vína og vínræktarsvæða. Breskur prestur varð fyrstur til að færa inn á landakort þau vín og svæði er einhvers virði voru. Hann skipti vínunum niður í dáð og minna dáð. Þetta kort ber ártalið 1224.

Kaupmenn í Feneyjum fluttu vín frá einum hluta Evrópu til annarrs. Þannig var hægt að bera saman vín hinna ýmsu svæða. Einnig urðu krossferðirnar til þess að menn kynntust mismunandi stílbrigðum vína eftir heimshlutum.

Þetta leiddi til framfara í víngerð. Hvert svæði lagði metnað í að bæta sína framleiðslu. Sérkenni landa og svæða innan þeirra urðu augljós.

Spánverjar og Portúgalir vöktu athygli fyrir framleiðslu sína á dýrindis sætum vínum, Sherry og Portvíni.

 

Þróun víns og víngerðar til okkar daga. 8. hluti, vínsnobb

Bretar höfðu uppgötva hin frábæru vín frá Bordeaux og til varð orðið Claret yfir hágæða rauðvín frá Bordeaux sem þóttu ómissandi á borðum breskra aðalsmanna.

Á seinni hluta 15. aldar vildu menn finna lausn á því  vandamáli að vínin skemmdust alltof fljótt og brögðuðust þá eins og edik.

Árið 1586 skrifar Englendingurinn William Harrison um snobbið sem fylgir því að drekka vín úr glerflöskum og glerglösum sem aðeins var á færi aðalsins.

Fyrstu tilraunir manna til að framleiða flöskur til langtíma geymslu á borðvínum voru gerðar í Englandi árið 1630. Englendingurinn Sir Kenelm Digby sem fyrstu fjöldaframleiddi glerflöskur undir vín er titlaður ,,faðir” vínflöskunnar í vínsögunni.

Einn vandi var óleystur en það var tappinn í vínflöskuna.  Rómverjar höfðu notað korktappa en það hafði fallið í gleymsku. Menn reyndu að binda klúta yfir flöskuhálsinn en vínin héldu áfram að skemmast þrátt fyrir það. Einnig var reynt að strekkja leður yfir stútinn og utan á leðrið var brætt vax til þess að hindra að súrefnið næði að víninu. Allt kom fyrir ekki og engin lausn fannst.

 

Þróun víns og víngerðar til okkar daga. 9. hluti, tappi og tappatogari

Næsta skref var að vandaðri framleiðendur fóru að láta steypa fyrir sig skrautlega glertappa sem ekki dugðu þó nógu vel.

Árið 1676 var byrjað að nota kork fyrir alvöru og þar með var loksins fundin laus til frambúðar. Korktappinn skapaði nýtt vandamál. Hvernig átti að ná þessu undraefni úr flöskuhálsinum án þess að korkurinn færi í vínið?

Fyrsta skrifaða heimildin um tappatogara er frá árinu 1681. Þar var  áhaldinu lýst sem stálormi er notast til að ná korktappa úr flöskuhálsi. Þessi stálormur hafði verið notaður í 50 ár  til að fjarlægja púður og kúlur úr byssuhlaupum ef ekki hafði tekist að sprengja púðrið eða skot misheppnast.

Árið 1720 er farið að nota orðið tappatogari um þetta nauðsynlega áhald.

Þróun víns og víngerðar til okkar daga. 10. hluti, þáttur Dom Pérignon

Fyrsti fullkomnunarsinni nútíma víngerðar var munkurinn Dom Pérignon. Eftir að víngarðar Champagne héraðsins höfðu verið tættir í sundur í styrjöldum og óáran tók þessi maður sig til og gerði Champagne að þeirri gullkistu sem þetta hérað hefur verið æ síðan.  Þessum manni voru fengin öll yfirráð yfir framleiðslu freyðivíns Hautvillers klaustursins. Þetta gerist árið 1668, er hann var aðeins 29 ára að aldri. Dom Pérignon var talinn einstakur snillingur í blöndun vínsafa frá hinum ýmsu svæðum og búgörðum í Champagne héraðinu.  Hann fann út hina einu sönnu blöndu sem tryggði mestan ilm, mýkt og langt eftirbragð.

Ein frægasta kampavínstegund heims heitir einmitt Dom Pérignon og er það mesta gæðavín framleiðandans Moët og Chandon.

Þróun víngerðar frá árinu 7000 fyrir Krist og allt fram á 19. öld var í raun afskaplega lítil ef frá er talið að ílátin og lokun þeirra batnaði. Allt í einu upplifðu sælkerar og vínáhugamenn freyðandi kampavín, úrvals búgarðavín frá Bordeaux, Tokajivínin, gæðaportvín og fyrstu merki um gæðavín utan Evrópu. Nýi heimurinn var kominn á kortið í víngerðinni.

Bandaríkjamenn komust brátt á spjöld sögunnar í víngerðinni. Minnast má á okkar mann í því sambandi. Sagan segir að Leifur Eiríksson hafi siglt frá Íslandi til vesturheims, í kringum árið 1000.  Við heimkomuna sagði hann frá landi sem hann nefndi Vínland hið góða.  Leifur fór aftur til Vínlands og reisti byggð þar, sem síðar var kallað New England. Ef til vill áttu Íslendingar fyrsta víngerðarmanninn í Vesturheimi á Cape Cod.

 

Þróun víns og víngerðar til okkar daga. 11. hluti, flokkunin í Bordeaux

Portúgalir voru miklir sæfarendur og í landvinningaferðum alla tíð. Síðasti viðkomustaður þeirra á Atlantshafi áður en haldið var vestur um var eyjan Madeira. Þar var framleitt vín sem á þeim tíma taldist ekki til göfugra drykkja. Þessi vín voru flutt til nýlendanna í Vesturheimi. Siglingaleiðin lá um svæði nærri miðbaug og því var ákaflega heitt á leiðinni. Vínið hitnaði allt upp í 40°C en við það batnað vínið til muna. Borgin Savannah í Georgíufylki varð fljótlega helsta miðstöð heimsviðskipta með drykkinn frá Madeira.

Næsti stórviðburður í vínsögunni varð í Frakklandi. Eftirspurn eftir góðum frönskum vínum var orðin mikil og samkeppni milli búgarða og svæða.  Þeir bestu fengu hærri verð fyrir sína framleiðslu.  Freistandi var þá að auka framleiðsluna með þeim afleiðingum að gæðunum hrakaði. Þeir bestu vildu líka staðfesta sín gæði. Ákveðið var að flokka vínin frá Bordeaux í gæðaflokka. Þessi flokkun leit dagsins ljós árið 1855.  Aðeins fjórir búgarðar náðu inn í efsta gæðaflokkinn fyrir rauðvín Bordeaux héraðs.

Nú var opinberlega skráð, að bestu rauðvín Bordeaux væru:

Château Lafite

Château Latour

Château Margaux

Château Haut-Brion

Í hvítvínum var aðeins einn búgarður sem náði inn í efsta gæðaflokkinn og besta hvítvín Bordeaux samkvæmt flokkuninni var: Chateau d´Yquem

Flokkunin varð fyrirmynd annarra slíkra gæðakerfa, sem seinna meir voru tekin upp annarsstaðar í Frakklandi, sem og öðrum löndum.

Menn hefur greint á um ágæti þessarar flokkunar allt frá upphafi, en hún tryggir viðskiptavininum ákveðin gæði. Helsti galli flokkunarinnar í dag er að í neðri gæðaflokkum eru vín sem ættu fullt erindi inn í hærri flokk. Margir framleiðendur sem lentu í neðri flokkum eru að gera betri vín í dag en þeir gerðu árið 1855.

Aðeins ein breyting hefur verið gerð á þessari ströngu flokkun frá upphafi. Árið 1973 var fjölgað í efsta gæðaflokki rauðvína um einnnn búgarð. Hann hafði áður verið talinn besti búgarður í öðrum flokki. Eftir áratuga langa baráttu var hann fluttur upp á milli flokka. Þessi búgarður var: Chateau Mouton Rothshild.

Þróun víns og víngerðar til okkar daga. 12. hluti, gula ekkjan

Á þessum tíma var að gerast merkilegur hlutur í héraðinu Champagne.  Heiðurinn af því átti ekkjan. Þetta var 27 ára gömul kona, ekkja eftir eiganda Veuve Clicquot Ponsardin fyrirtækisins. Nicole – Barbe Clicqout Ponsardin fann upp nýja aðferð við að grugghreinsa kampavín. Hún og starfsmenn hennar hófu að stilla kampavínsflöskum í rekka þannig að hálsinn snéri niður. Þá þurfti annað slagið að hrista og snúa flöskunum í rekkunum, til þess að óhreinindin söfnuðust öll að tappanum. Flaskan var opnuð og það fyrsta sem þrýstingurinn losaði úr flöskunni var gruggið.  Þetta þýddi að mun minna fór til spillis en áður hafði gert. Fram að þessu hafði vínið verið geymt á flöskunum liggjandi á hliðinni og safnaðist botnfallið niður á hlið flöskunnar.  Þetta hafði það í för með sér að umhella þurfti öllu víninu og alltof mikið úr hverri flösku fór til spillis.  Nú var aðeins örlítið af víninu sem tapaðist og einungis þurfti að fylla smá viðbót á hverja flösku til að vera kominn með vöruna í söluhæft form. Þessi aðferð Ponsardin ekkjunnar fékk nafnið Méthode Champenoise.

Feiri lönd fóru nú að láta til sín taka í víngerðinni. Þar er helst að nefna bæði Kaliforníu-svæðið í Bandaríkjunum og víngerð í Ástralíu.

 

Þróun víns og víngerðar til okkar daga. 13. hluti, rótarlúsin hræðilega

Hinn hræðilegi rótarlúsarfaraldur skall á árið 1863. Þessa varð fyrst vart í Evrópu, á svæði sem nefnist Arles og er í héraðinu Provence í Frakklandi. Lauf vínviðarins gulnuðu upp og féllu síðan af greinunum, ný brum voru kraftlaus og berjaklasar vínviðarins þroskuðust ekki.

Þremur árum eftir að fyrstu einkenna varð vart, var plantan dauð. Lítið skordýr lagðist á rótarskot vínviðarins og tók alla  næringu sem rótin vann úr jarðveginum.

Þetta gerðist vegna tilkomu hraðskreiðra gufuskipa. Lúsin barst frá Ameríku yfir til Evrópu. Áður hafði lúsin drepist á leiðinni yfir hafið. Nú tók ferðin skemmri tíma og lúsin náði að halda lífi. Aðeins örfá smærri svæði í Evrópu sluppu við þennan faraldur.

Evrópskir víngerðarmenn glímdu við vandann. Fundin voru eiturefni sem sprautað var niður í jarðveginn til að drepa lúsina. Þau virkuðu ekki nógu vel, auk þess sem það gat skaðað vínviðinn ef efnin voru of sterk.

Í Ameríku  voru vínviðartegundir sem voru orðnar ónæmar fyrir lúsinni. Þetta bjargaði vínrækt Evrópumanna. Þeir fengu rætur frá Ameríku er myndað höfðu þol gegn lúsinni. Á þessar rætur voru græddar greinar af evrópskum vínvið.

Framleiðendur í Chile benda sífellt á, að eina landið sem framleiðir gríðarlegt magn og ekki hefur nokkurn tíman orðið fyrir árás Phylloxera lúsarinnar, sé þeirra.

Eftir að evrópsk víngerð reis að nýju hófst mikil framþróun með tilkomu tækninnar.  Háskólar kenna nú allt um  víngerð og vísindamenn vinna að rannsóknum á þessu sviði.

Þróunin hefur orðið í átt að léttari og frísklegri vínum. Markmið víngerðarmeistarans er að framleiða í dag hágæðavín sem neyta má á morgun. Umbúðir eru að breytast úr flöskum í kassa og fernur og æ fleiri framleiðendur nota nú skrúfaða málmtappa í stað korktappans.